Chevrolet Captiva 2013

Fyrir valinu varð Chevrolet Captiva LT 2013, með 2,2L Diesel vél og 6 þrepa sjálfskiptingu. Þegar maður gengur að bílnum og horfir á hann þá verður manni ósjálfrátt hugsað til gömlu Amerísku jeppanna þar sem bíllinn er allur frekar sléttur og stílhreinn síðan þá virkar hann mun minni en hann er í raun og veru.


Samt er Captiva einn af þessum alþjóðlegu bílum sem stóru bílaframleiðendurnir eru farnir að framleiða nú til dags, og heitir Captiva til dæmis Equinox í Bandaríkjunum og Canada og er síðan framleiddur sem Vauxhall Antara í Englandi síðan notar Opel líka Antara nafnið undir bíl sem smíðaður er á sama botni í Þýskalandi. Strax og maður sest inn í bílinn þá tekur maður eftir því hversu hátt maður situr miðað við að bíllinn er ekkert sérstaklega hár sjálfur og mjög auðveldur í umgengni. Þá eru stórir gluggar á honum og mjög gott útsýni til allra átta.


Stjórntækin er vel staðsett og ekki of erfitt að læra á þau þó svo að það sé að sjálfsögðu mikið um tölvur og allskonar búnað í bílnum. Diesel vélin er 2,2L með turbo að sjálfsögðu og nokkuð snörp, en þó má kannski setja út á að það heyrist full mikið í henni og þá sérstaklega inn í farþegarýmið, en það er ekkert sem pirrar þann sem er vanur diesel bílum.


Undirritaður var hissa á hversu létt vélin hafði þennan 1975kg bíl áfram í nokkuð hraðri umferð og síðan er bíllinn mjög lipur í umferðinni þú svo að þetta sé sjö manna bíll. Ef hins vegar fólk velur að nota bílinn í sjö manna útgáfunni þá er lítið pláss fyrir farangur og það má kannski segja að það komist ekki einu sinni fyrir skjalataska fyrir aftan bekkinn, en ef aftasti bekkurinn er lagður niður þá myndast mjög gott pláss fyrir farangur.


Innréttingin er einföld og sætin svolítið hörð (á þeim bíl sem prófaður var) og myndatökumaðurinn sem var með í för kvartaði heil ósköp, en þar sem undirritaður er fyrir svolítið hörð sæti þá fannst mér þau bara nokkuð þægileg þó svo að mjóbaksstuðningurinn mætti vera betri.


Aftur sætið rúma tvo fullorðna nokkuð vel en það er heldur þröngt um þrjá, nema þá að þeir séu í minni kantinum. ekki lögðum við í að troða okkur í öftustu sætin og okkur fannst þau nú kannski vera svona meira fyrir minna fólk og börn en litu samt alls ekki út fyrir að vera neitt óþægileg, það var helst umgangurinn í þau sem okkur fannst vera frekar þröngur eins og gefur að skilja í ekki stærri bíl.


Við prófuðum bílinn bæði í borgarumferð og úti á þjóðvegi og gátum meira að segja fundið svolítið leiðinlegan malarveg til að láta reyna á fjöðrunina. Í bænum var Captivan alveg stór góð bæði lipur og skemmtileg, létt í stýri og skiptingin var að vinna vel með vélinni án þess að hanga mikið í gírunum eins og stundum vill verða með sjáfskiptingar. Bíllinn leggur vel á og er auðvelt að leggja honum í stæði, þá var bíllinn ekki hastur og bremsurnar léttar og góðar.


Stýrið er meðal næmt og svarar vel án þess að vera of létt og síðan eru allir mögulegir og ómögulegir hnappar í stýrinu og í kringum það þannig að ekki þarf að taka hönd af stýri til að gera nokkurn skapaðan hlut, eða næst um því. Þá var ekið úr bænum og þá kom aftur fram það sem undirrituðum finnst kannski vera mesti gallinn í bílnum og það er hávaðinn frá vélinni, en lítill hvinur var í dekkunum en bíllinn var á frekar fínmunstruðum dekkjum á 17" álfelgum, en það er hægt að fá bílinn á 19" felgum ef þær eru sérpantaðar. Það að vera á aðeins belgmeiri dekkum gefur bílnum líka meiri mýkt en ella og hvað mig sjálfan áhrærir þá fannst mér þessi dekk hæfa bílnum vel. En áfram með aksturinn.


Kannski það helsta sem má finna að bílnum í akstri úti á vegum er hversu lítið maður finnur fyrir hraðanum, og undirritaður var oft kominn í hraða sem ekki má tala um áður en hann vissi af þar sem bíllinn virtist ekki finna fyrir þessu, þó að vélin sé ekki gefin upp nema 135 hestöfl. Þegar út á mölina var komið þá hélt Captivan áfram að koma manni á óvart með mjúkri og þægilegri fjöðrun og ótrúlegri rásfestu hvort sem var á auðum vegi, holum eða í þæfings snjó og hálku. Bíllinn er búinn ESC rafeinda stöðugleika stýringu, TSC gripstýringu og að sjálfsögðu ABS bremsum. þessu til viðbótar er síðan bakkskynjari sem er mikið þarfaþing fyrir marga. síðan er það líka eitt sem gerir bílinn stöðugan í hvernig færi sem er og það er sídrifið, en bíllinn er alltaf í fjórhjóladrifi og persónulega finnst mér það vera ágætt.


En allavega þá er mjög skemmtilegt að keyra Captiva og ég held að þeir sem hafa prófað hann séu mér sammála. Samkvæmt framleiðanda á eyðslan á bílnum eins og við höfðum að vera 10L á 100 km, og ég er ekki frá því að það hafi verið svipað og við sáum svona í grófri mælingu án þess að vera að keyra nokkurn sparakstur. Mörgum kann að finnast að Captiva sé helst til þungur bíll miðað við stærð eða rúm 1970kg, en við skulum líta á að hann er mjög sterkbyggður og öruggur með styrktarbita í hurðum, hlíf fyrir eldsneytistanki og fleira en það þyngir svona bíl talsvert.

Ef við tökum nú það saman sem við höfum verið að skoða, þá myndi ég segja að miðað við allt þá hefur þessi bíll enga stórvægilega galla, allavega enga sem ekki má réttlæta fyrir verðmiðann sem er aðeins 6.390.000.-* og það er bara alls ekki svo slæmt fyrir jeppa í þessum stærðarflokki. Ég myndi allavega treysta mér eftir þennan reynsluakstur að benda fólki á að fara í Bílabúð Benna og skoða Chevrolet Captiva ef það er að spá í að kaupa sér skemmtilegan millistærðar jeppa fyrir fjölskylduna á sanngjarnan pening. Síðan er jú alltaf hægt að hlaða á bílinn aukahlutum, af nógu er að taka. Niðurstaðan er eftir þessa prófun er góður fjölskyldujeppi á sanngjörnu verði. Síðan verður hver að meta fyrir sig.

HS.