Mercedes Benz GLK

Mercedes Benz GLK


Í síðasta blaði reynsluókum við Chevrolet Captiva. Þar sem vetur ríkir erum við enn á slóðum jepplinganna, enda slíkir bílar óneitanlega hentugir við íslenskar aðstæður. Að þessu sinni varð fyrir valinu Mercedes Benz GLK. Þessir tveir bílar eru sjálfsagt ekki keppinautur í hugum fólks; Chevroletinn í ódýrari enda jepplingaflórunnar, hagkvæmur og notadrjúgur en Benzinn ímynd lúxuss, íburðar og gæða. Ekki eru þeir þó að öllu ólíkir, sama stærð, svipaðar driflínur á pappírunum en verðmunurinn er nokkur; Chevrolettinn frá 6,4 millj. samanborið við 7,7 millj. fyrir Benzinn í ódýrustu útgáfu. Ekki er meiningin að bera þessa tvo bíla saman með nokkrum hætti, en þeir, sem lásu greinina um Captivuna í síðasta blaði geta haft þetta í huga við lestur þessarar. Fyrsta kynslóð smájeppa frá Mercedes Benz, GLK, sem kom á markað 2008 átti að höfða til kaupenda, sem vildu „jeppalegan“ bíl, sem samt væri lítið fyrirferðarmeiri í borgarumferð en millistór fólksbíll. Þessi gerð bíla, sem gjarna hafa verið kallaðir „jepplingar“ má segja að Toyota hafi fundið upp með fyrstu kynslóð af RAV4, sem kom á markað 1994. BMW varð fyrstur þýsku eðalbílaframleiðendanna til að reyna við þennan markað með X3 2003 og Audi og Benz fylgdu síðan í kjölfarið með Q5 og GLK 2008. Þess má til gamans geta að GLK kom fyrst fyrir almenningssjónir í kvikmyndinni „Sex and the City“ þar sem Samantha Jones sést hlaða bílinn lúxusvarningi og aka síðan af stað. Atriðið tekur heilar 16 sek. Maður veltir fyrir sér hvort þetta hafi átt að gefa til kynna til hvaða markhóps Mercedes vildi höfða með bílnum. Alla vega hef ég alltaf litið á GLK sem „konubíl“. Fjórum árum eftir að GLK kom á markað, 2012 fáum við síðan fyrstu endurgerð bílsins, og þó honum svipi mjög til þess eldri í útliti hefur, eins og oft er, mun meiru verið breytt en við blasir við fyrstu sýn.

Hönnun og útlit
Útlit bílsins er svipað fyrri gerð. Megin munurinn er að framendinn er öðruvísi og ber þar mest á nýju grilli þar sem stjarnan, merki Mercedes Benz er enn meira áberandi en áður. Afturljósin eru einnig önnur en aðrar breytingar eru ekki eins augljósar. Í fljótu bragði er óvíst maður mundi greina á milli nýju og gömlu gerðarinnar nema hafa þá hlið við hlið. Annars er GLK fremur óvenjulegur bíll að sjá, sumir hafa m.a.s. kallað hann gamaldags. Hann víkur alla vega frá þeim meginlínum sem virðast ríkjandi í hönnun jepplinga nú á tímum, með því að hunsa bogadregnar línur að mestu og halda sig í staðinn við hið hefðbundna kassaform bílsins, svona eins og þeir, sem ekki hafa náð teikniþroska umfram Óla Prik myndir mundu teikna. Þegar horft er á bílinn frá hlið eru einkenni hans stórar hliðarrúður og næstum lárétt húddlína, nokkuð löng. Hjólbogarnir eru frekar kantaðir og afturendinn nær lóðréttur. Brotið eða línan, sem liggur aftureftir hlið bílsins minnir síðan mjög á C-línuna frá Benz. Þessi tenging við C-Benzinn ásamt með áberandi grillstjörnunni sýnir glöggt, að hér er Benz á ferð, jafnvel þeim sem engan áhuga hafa á bílum. Ætli það hafi ekki líka verið meiningin?

Innanrými
Að innan hefur meiru verið breytt frá fyrri gerð en í útliti bílsins. Hér er allt nýtt. Mælaborð er svipað og í Clínunni og ekkert nema gott um það að segja. Mælar eru stórir, einfaldir og skýrir beint fyrir framan ökumann, en stjórntæki eru svolítið flókin við fyrstu kynni; stilkar við stýrið, takkar í mælaborði og snúningshnappur í miðjustokki. Það tekur svolitla stund að finna út hvað er hvað, en þá er vert að hafa í huga að það sem stjórna má er æði margt. Má þar nefna skriðstilli, hljómtæki bæði í stýri og mælaborði, fjölda stillinga fyrir miðstöð og loftkælingu, sæta- og rúðuhitara og loks aksturstölvu. Tölvan getur gefið upplýsingar um ótalmargt, en skýrt yfirlit yfir eldsneytisnotkun er e.t.v. það gagnlegasta nú til dags. Það er tvennt, sem ég var ekki sáttur við í stjórntækjunum. Annað er snúningshnappurinn, sem er nákvæmlega eins og í BMW-inum, sem konan mín ekur og stýrir sömu hlutum. Ég hef aldrei náð tökum á þessu áhaldi, en það er örugglega einhver sértæk fötlun, sem hrjáir mig. Hitt er staðsetning gírstangarinnar á stilk við stýrið. Það kom fyrir að ég sló bílnum í hlutlausan þegar ég ætlaði að gefa stefnuljós til vinstri, sem er heldur bagalegt. Ég veit þó af fyrri reynslu af Benz, að þetta venst á skömmum tíma. Sætin í bílnum eru frekar stíf, en ákaflega þægileg. Aftursætisrými er gott og ég, sem er 181cm á hæð treysti mér alveg til að sitja fyrir aftan jafnháan ökumann á lengri leiðum. Farangursrými er ekki mjög mikið og stærsti galli þess hve hátt gólf þess er, en þar undir er varadekkið. Allur frágangur er hinn besti og efnisval sýnir gæði. Um leið og sest er inn finnur maður að þetta er lúxusbíll.

Vél og akstur
Vél reynsluakstursbílsins er 2,2 lítra, 4 strokka díselvél, 170 hestöfl. Einnig er bíllinn fáanlegur með sömu vél í 140 og 204 hestafla útfærslum. Að auki eru í boði sex strokka dísel og bensínvélar. Vél reynsluakstursbílsins er að vísu ekkert of öflug, en ég efast um að nokkur muni setja það fyrir sig í venjulegri notkun, þó svo öflugri útgáfa hennar sé eflaust skemmtileg. Val hennar mundi hins vegar hleypa verðinu nokkuð upp, svo 170 hestöflin virðast góður kostur. Sjö gíra sjálfskiptingin færir sig mjúklega milli gíra og heldur vélinni á ótrúlega lágum snúningi að öllu jöfnu, en ef taka á á því er hún stundum svolítið svifasein þegar tekið er harkalega af stað eða gefið hressilega inn á ferð. Það má svo sem segja að hvorugt sé nauðsynlegt eða skynsamlegt, en samt. Fjöðrunin minnir helst á þýskan fólksbíl; nokkuð stíf og fyrir vikið er bíllinn stöðugur í beygjum og hallar lítið. Á móti kemur, að haldi menn að eitthvað sé jeppalegt við fjöðrunina er það misskilningur. Sé ekið of hratt yfir hraðahindrun slær hún saman og ef ekið er (óhóflega hratt) á grófum malarvegi þá hoppar bíllinn um þar sem fjöðrunin nær engan veginn að jafna út stærri ójöfnur. Hvorugt kemur á óvart né er óeðlilegt. Þetta átti aldrei að vera torfærubíll og áhersla hefur verið lögð á malbikshegðun og að uppfylla þá kröfu Þjóðverja að geta ekið á 130 á hraðbrautum tímunum saman af öryggi og án þess að þreyta ökumann. Það gerir þessi bíll örugglega óaðfinnanlega. Stýri er ekki óhóflega létt, eins og er orðið algengt nú til dags, án þess að vera of þungt þegar í bæjarsnattið er komið. Og talandi um það. Í innanbæjarsnattinu kemur byggingarlag bílsins honum mjög til góða. Stórar rúður, lág og flöt húddlína, kantaðar útlínur; allt gerir þetta mjög auðvelt að staðsetja bílinn og maður sér vel hvar öll horn og endar bílsins eru. Þetta er einkar gott í bílastæðahúsum þar sem íslenskum bílastæðum hættir til að vera óþægilega lítil.

Keppinautar
Eins og fram hefur komið er grunnverð Mercedes Benz GLK 220 CDI 4MATIC BlueEFFICIENCY, eins og þessi gerð heitir fullu nafni, tæpar 7,7 milljónir. Sú tala hækkar hratt ef menn sleppa sér í aukahlutalistanum, en þegar búið er að bæta við grunnverðið leðurinnréttingu og nokkrum öðrum hlutum, sem Benz getur illa verið án er verðið komið í nálægð við 8,5 milljónir. Ódýrari bílar í þessum stærðarflokki, t.d. Toyota RAV4 eða Honda CRV kosta með díselvél og sjálfskiptingu um 7 milljónir, listaverð á BMW X3 og Volvo XC60 er nálægt 9 milljónum og Audi Q5 yfir 9. Hér er þó rétt að setja fyrirvara um að grunnbúnaður þessara gerða kann að vera ærið misjafn, svo einfaldur verðsamanburður er svolítið varhugaverður.

Niðurstaða
Að reynsluakstri loknum verð ég að segja að bíllinn kom mér skemmtilega á óvart. Þetta er ákaflega þægilegur bíll í allri umgengni, hentar vel í bæjarakstri og þrengslum en hefur jafnframt góða eiginleika á vegi. Fjórhjóladrif er að mínu mati mikill kostur við vetrarastæður á Íslandi og að lokum ber GLK-inn öll merki eðalvagns. Ég hef alltaf, eins og fram hefur komið, litið á GLK sem „konubíl“. Lyklunum að GLK-inum skilaði ég hins vegar með þeim orðum að „...ég gæti alveg notað þetta“.

+Haukur Svavarsson.
Myndir: Mercedes Bens Media Club, Hálfdán Sigurjónsson.