Nýr Golf

 

Á sama hátt og nýr S-Bens markar ævinlega tímamót í bílaheiminum og sýnir okkur inn í framtíðina með ýmsum tækninýjungum, sem síðan smátt og smátt verða að almennum búnaði „venjulegra“ bíla hefur Golfinn, allt frá 1974, þegar fyrsta kynslóð hans kom á markað, verið sá bíll í sínum stærðarflokki sem aðrir eru bornir saman við. Á nokkurra ára fresti hefur síðan komið fram ný kynslóð bílsins og 2013 árgerðin af Golf er sú sjöunda í röðinni, enda gjarna kallaður Golf VII. Umdeilt er hvort sérhver breyting hafi verið framfaraspor og um það ætla ég ekkert að segja hér. Hins vegar er ljóst, þegar lesin  er umfjöllun um sjöundu kynslóðar Golfinn í erlendum bílablöðum, allt frá Bandaríkjunum, gegnum Skandinavíu, Þýskaland og Bretland allt til Suður Afríku og Ástralíu (já, ég er búinn að kynna mér þetta) þá eru menn almennt sammála: Hér er um tímamótabíl að ræða. Og hvað felst í því? Þegar Hekla kynnti Golf VII fyrir stuttu hafði eintaki af öllum kynslóðum verið raðað í röð í sýningarsalnum, svo tækifæri gafst til að bera þá saman án þess að þurfa að treysta á minnið. Þegar maður horfir á fimmtu, sjöttu og sjöundu kynslóð Golfsins alla í einu er ekki að sjá að bylting hafi átt sér stað. Réttara er að kalla breytingarnar á útliti hægfara þróun. Það er nefnilega svo, að byltingin hefur farið fram í kyrrþey. Mikilvægustu breytingarnar eru undir yfirborðinu og koma eiginlega ekki í ljós fyr en sest er undir stýri og ekið af stað. Meira um það síðar.

 

Hönnun og útlit

Mér finnst Golf VII fallegri bíll en Golf VI, en útlit hans vekur ekki sömu aðdáun og Golf V gerði á sínum tíma. Breytingarnar frá VI eru þær helstar að hjólhaf bílsins er nærri sex sentimetrum lengra og bíllinn í heild er rúmum fimm sentimetrum lengri en áður. Þrátt fyrir að bíllinn hafi stækkað hefur með breyttu efnisvali og aðferðum í smíði tekist að létta bílinn um 100 kg frá sjöttu kynslóðinni. Jafnframt er bíllinn lægri og virkar því rennilegri á að líta. Húddlína bílsins virkar lengri en og lækkar meira niður að framan en áður. Fyrir vikið er framendinn lægri framanfrá séð og grillið þynnra. Frá hlið séð er brot eftir endilöngum hurðunum mest áberandi breytingin og þetta tvennt, ásamt með lægri þaklínu, gera bílinn rennilegri á að sjá. Hann virkar einnig stærri en áður, trúlega vegna lengra hjólhafs. Í raun má segja að Golfinn sé ekki lengur neinn smábíll enda hefur hann,   líkt og flestir bílar, stækkað jafnt og þétt gegnum áratugina og þessi sjöunda kynslóð er nærri 60 cm lengri en sú fyrsta. Enda hafa aðrar gerðir frá VW tekið yfir hlutfall smábílsins svo segja má að Golfinn sé orðinn fullorðin. Spurningin er hins vegar hvernig sú fullorðnun skilar sér í öðrum þáttum en útlitinu einu.

 

Innanrými

Lenging hjólhafs Golfsins, sem nefnd hefur verið, skilar sér í auknu innanrými sem einkum kemur fram í aftursæti, þar sem fer vel um fullvaxna farþega, alla vega tvo. Auk þess hefur farangursrýmið vaxið úr 350 lítrum í 380. Í ökumannssætinu fer ákaflega vel um mann. Auðvelt er að koma sér vel fyrir undir stýri því sætin má hækka og lækka og stýrið má færa í ýmsar áttir, svo ökumenn af öllum stærðum og gerðum ætti að geta fundið sér þægilega stellingu. Mælaborðið er klassískt og einfalt; stór snúninshraðamælir og hraðamælir hlið við hlið auk hitamælis og eldsneytismælis. Milli þeirra er lítill upplýsingaskjár hvar kalla má fram ýmislegt skemmtilegt úr aksturstölvunni. i-kynslóðin fær síðan nokkuð við sitt hæfi á miðju mælaborðsins í formi stórs snertiskjás, sem gerir hvort tveggja að stjórna öllu mögulegu í bílnum og birta enn meira af upplýsingum. Maður spyr sig hvort þær séu allar þarfar og hvort maður væri ekki alltaf að fikta í þessu. Kosturinn er þó sá, að sumra mati að með þessu móti má fækka tökkum stórlega og vissulega er fjöldi þeirra mjög hóflegur. Eitt get ég ekki stillt mig um að nefna og er það stýrishjólið. Með fimmtu kynslóð af Golf GTI kom fram stýrishjól sem var flatt að neðan. Síðan hefur þessi lögun stýrisins sést í fleiri bílum frá VW samsteypunni og þá einkum þeim útgáfum, sem áttu að búa yfir eiginleikum aflmikilla, sportlegra bíla. En nú er þetta stýrishjól komið í venjulegan Golf. Ég hef aldrei skilið af hverju VW straujaði botninn á stýrishjólinu. Mér fannst þetta cool á sínum tíma, en á að færa coolið yfir alla línuna? Þó má segja, að maður hafi meira pláss fyrir hné og læri á leið inn í og út úr bílnum. En hvað um það. Hér á landi er Golf, alla vega fyrst um sinn, boðinn í þrem útfærslum; Trendline, Comfortline og Highline. Trendline bíllinn, grunngerðin, er með öllum þeim búnaði sem hægt er að ímynda sér sem ekki er hreinn lúxus. Það eina sem ég saknaði úr Trendline bílnum voru skriðstillir, fjarlægðarskynjarar og ljós við spegla í sólskyggni. En þetta er auðvitað allt óþarft. Comfortline útgáfan leysir úr þessum söknuði mínum auk þess að bjóða betri framsæti, og Highline útgáfan bætir við topplúgu og einhverju fleira glingri. Allur frágangur og efnisval í innréttingu er með ágætum og miklu mun íburðarmeiri en tíðkaðist í bílum í þessum flokki fyrir fáum árum síðan. Þegar sest er inn í Golfinn fær maður á tilfinninguna að hér sé maður staddur í vönduðum bíl þar sem áhersla hefur verið lögð á fágun. Hér er ekkert, sem fær mann beinlínis til að segja „vá, þetta er flott“, ekkert eitt sem heillar eða dregur að sér athygli. Þess í stað er það heildin sem maður dáist að. Hér er eins og allt hafi verið valið af yfirvegun til að skapa þessa heild, og sé svo þá hefur það að mínu mati tekist.

 

Vél og akstur

Tvær vélar eru í boði; 1,4 lítra bensínvél upp á 122 hestöfl og 1,6 lítra dísilvél uppá 105 hestöfl. Með hvorri um sig má velja beinskiptingu eða sjálfskiptingu (Já, DSG skiptingin er sjálfskipting, hún skiptir sjálf um gír, þó svo hún sé tæknilega öðru vísi en hefðbundnar sjálfskiptingar). Allar samsetningar véla og skiptinga má fá í Trendline og Comfortline, en í Highline er einungis boðið upp á sjálfskiptingu. Allar þessar útgáfur eiga það sameiginlegt að CO2 í útblæstri er 120 g/km eða minni svo allir fá þeir frítt í stæði og bera lágmarks bifreiðagjöld. Reynsluakstursbíllinn var búinn dísilvélinni og DSG skiptingu. Þetta tvennt vinnur vel saman. Vélin hefur mikinn togkraft og samstilling  vélar og skiptingar er augljóslega miðuð að því að lágmarka eldsneytiseyðlu. Skiptingin sér um að halda vélinni á mjög lágum snúningi að öllu jöfnu og mikið tog hennar gerir að verkum að manni finnst aldrei eins og afl skorti. Þó svo hægri fætinum sé beitt af varfærni er hröðun bílsins fullkomlega næg til að fylgja venjulegum umferðarhraða áreynslulaust og vel það. Auðvitað má rétta hressilegar úr öklanum ef manni sýnist svo og skilar slíkt bílnum vel áfram, t.d við framúrakstur eða til að skilja aðra bíla eftir á umferðaljósum, en ef menn hyggjast stunda slíkan akstursmáta reglulega gæti ég trúað að bensínvélin með beinskiptingu sé skemmtilegri kostur. Dísilvélin gæti ég trúað hentaði best þeim, sem aka þurfa einhverjar vegalengdir reglulega, segjum úr Mosfellsbæ til Reykjavíkur meðan þeir, sem mest aka stuttar vegalengdir í einu öllum stundum, væru betur settir með bensínvélina. Valið milli beinskiptingar og sjálfskiptingar er meira spurning um smekk en nokkuð annað. Um fjöðrun bílsins og alla hegðun á vegi er varla ástæða til að ræða. Hér er allt með hinu besta móti. Fjöðrun bílsins er ekkert lungamjúk en hún er alls ekki óþægilega stíf. Hún er einhvers staðar þarna á milli, sem gerir að verkum að engin leið er að kvarta yfir henni. Bíllinn hallast hóflega í beygjum, svo auðveldlega má sigla gegnum þær á óhóflegum hraða án vandræða. Golfinn undirstýrir minna en ég átti von á, einkum í ljósi þess að reynsluaksturinn fór fram á blautum götum og vetrardekkjum. Jafnvægi bílsins er mjög gott og stöðugleikastýringin og spólvörnin og allt þetta tölvudót hjálpar auðvitað mikið til. Venjulegar ójöfnur eins og hraðahindranir og hjólför í malbiki eru ekki til neinna leiðinda. Stýri er hæfilega þungt og nákvæmt og bíllinn rásfastur svo manni finnst maður ekki þurfa að ríghalda í stýrishjólið þó slíkir gallar á malbikinu verði á vegi manns. Ef vegurinn versnar hins vegar mikið í átt að gamaldags malarvegi er ekki alveg eins gaman og hér ræður mjög miklu hvaða felgustærð er undir bílnum. Reynsluakstursbíllinn var á 17 tommu felgum, sem kom mjög vel út, en ef nota ætti bílinn á verri vegum væri líklega best að halda sig við 16 tommurnar, eða jafnvel 15 tommur og forðast þá freistingu að töffarast í stærri þó bíllinn líti óneitanlega betur út þannig. Einu verð ég að bæta við í lokin. Ég samdi við aksturstölvuna (og ég sem efaðist um gildi allra þessara upplýsinga rétt áðan) um upplýsingaöflun á leið minni í vinnuna einn venjulegan janúarmorgun. Þetta reyndust vera heilir 5 km, eknir í morgunumferðinni á 11 mínútum, meðalhraði 28 km/klst. Eldsneytisnotkun samsvaraði 6,8 lítrum á hundraðið, sem eru þá rúmir 3 desilítrar á þessari leið. Það er álíka magn af díselolíu og er af kaffi í morgunbollanum mínum. Vissulega tvöföld uppgefin eyðsla, en þetta er á köldum bíl á vetrarmorgni, sem sagt verstu aðstæður. Og talandi um eyðslu. Ég ók bílnum rúma 200 km við blandaðar aðstæður án þess þó að stefna sérstaklega að sparakstri (þvert á móti raunar) og títtnefnd tölva sagði mér að til þess hafi ég notað innan við 6 lítra á hundraðið.

 

Niðurstaða

Í þessum flokki bíla eru margir kostir í boði. Þetta er sá stærðarflokkur sem Evrópubúar kaupa mest af og samkeppnin er hörð á þeim markaði. Enda hefur sýnt sig að í gegnum tíðina hafa bílar í Golf flokknum vaxið og þroskast hratt eins og áður sagði. Golfinn er í augnablikinu alla vega mjög vænlegur kostur hérlendis þar sem verð er svipað og margra keppinautanna og Golfinn hefur eiginlega enga marktæka galla. Sama má auðvitað segja um alla hina líka, svo þegar upp er staðið er val kaupandans ekki auðvelt. Ég efast þó um að nokkur sæi eftir að velja Golf. Golfinn er ákaflega þægilegur bíll í alla staði. Ég get ekki bent á neitt eitt sem ber af, hvorki í útliti, umgengi né akstri en heildin er gallalítil. Hann leysir vel af hendi hin ólíkustu hlutverk; rúmgóður innanbæjarbíll, hvort heldur er fyrir einn eða fjölskyldu; góður akstursbíll á þjóðvegi, sparneytinn og ekkert dýrari en gengur og gerist með bíla í þessum flokki. Eins gera hinir mörgu valkostir í útfærslum og búnaði kaupendum kleift að sníða sér Golf eftir smekk og veski.  Í raun er grunnútfærslan fullkomlega fullnægjandi og með 1.4 lítra bensínvél og beinskiptingu kostar hann 3.4 milljónir. Svo má teygja sig alla leið upp í Highline útfærsluna og bæta við stærri álfelgum og leðurinnréttingu, velja díselvélina og DSG skiptinguna (sjálfskipting) og þér tekst að koma verðmiðanum yfir 5 milljónir. Innan þessa víða verðramma geta menn svo leikið sér eftir efnum og löngunum. Svo má alltaf bíða fram eftir ári eftir að fleiri útgáfur Golfsins komi á markað, t.d. 2.0 lítra díselvélin ýmist í 140 eða 170 hestafla útgáfum svo ekki sé minnst á Golf GTI. Jú annars, ég verð að  minnast aðeins á hann. Allt frá 1975 þegar GTI útgáfa Golfsins kom fyrst fram hefur þetta litla, þriggja stafa merki haft ákveðinn töfraljóma. Altént er það Golfinn sem dellukallar eins og ég bíða spenntir eftir, ekki hvað síst vegna þess að þessi hversdagslegi dísel Golf í Trendlinebúningi sem ég reynsluók minnti mig stöðugt á fimmtu kynslóðar GTI-inn sem ég átti á sínum tíma. (Vonandi) meira um það síðar.

 

Haukur Svavarsson

Myndir:

Hálfdán Sigurjónsson.