VW Up

Volkswagen Up


Í hinu margumrædda góðæri á síðasta áratug síðustu aldar var áhugi íslenskra bílaáhugamanna á smæstu gerðum smábíla harla lítill. En nú er öldin önnur. Stórhækkað verð bifreiða vegna gengishruns og breytts vörugjaldakerfis, sem byggir á getu bíla til að spúa frá sér koltvísýringi og breyttu kerfi bifreiðagjalda, byggt á hinu sama, auk snarhækkaðs eldsneytisverðs, hefur endurvakið áhuga landans á smábílum. Í dag eru á markaði nokkrir slíkir, sem kosta rétt um tvær milljónir króna, en það telst vera hundódýrt fyrir nýjan bíl eins og efnahagsástandið er, þó svo mörgum þyki eflaust nóg um.

Sá þessara bíla, sem hér er til umfjöllunar er VW Up, sem kynntur var hérlendis seint á síðasta ári. Saga þessa bíls er nokkuð skemmtileg. Hann er fyrst kynntur sem hugmyndabíll á bílasýningunni í Frankfurt 2007, þá með vélina afturí og afturhjóladrif, rétt eins og gamla bjallan á sínum tíma. Frá 2007 og þar til framleiðsla hófst í desember 2011 hafði hönnun bílsins breyst mikið þó svo útlitið væri ekkert ósvipað. Hin endanlega útgáfa VW Up er hefðbundinn framdrifsbíll með þverstæða, eins líters þriggja strokka vél að framan og skilar hún 60 hestöflum. Minnir óneitanlega á fyrstu kynslóð Daihatsu Charade sem var framleiddur frá 1977 til 1983 og mikið var af hér á landi á sínum tíma (þessi með kýrauganu í stað aftari hliðarrúða fyrir þá, sem muna svona langt aftur). Því má kannski segja, að á síðustu þrem áratugum séum við komin í hring, ef við gefum okkur að VW Up og aðrir sambærilegir bílar nái hylli íslenskra bílkaupenda í dag. En þetta átti aldrei að verða sagnfræðigrein (hver veit nema maður setjist við slík skrif síðar) heldur frásögn af reynsluakstri á téðum VW Up, svo ég held ég reyni að koma mér að efninu.

Hönnun og útlit
Útlit bílsins er ósköp einfalt. Hann er frekar kantaður, nefið stutt, þaklína nokkuð há og hliðarrúður stórar. Manni dettur í hug að við hönnun bílsins hafi útlitið ekki verið aðal atriðið heldur rýmið, þannig að innra rými hafi verið ákveðið fyrst og umbúðirnar síðan teiknaðar utan- um það. Svona eins og kallast á ensku „form follows function“ Helsta karaktereinkenni bílsins er nefið, þar sem grillið er brotið upp með nokkuð stórum fleti í lit bílsins, og lóðréttur afturendi. Hann verður líklega ekki kallaður beinlínis fallegur, en ljótur er hann svo sem ekki heldur. Þetta er alla vega ekki bíll sem fær vegfarendur til að snúa sér við á götu.

Innanrými
Að innan er hið sama ráðandi og í útlitinu; ekkert vekur sértstaka athygli. Hér er allt einfalt og íburðarlaust en þjónar ágætlega sínum tilgangi. Rými ökumanns er gott, sæti má hækka og lækka, sem og stýri, en ekki er hægt að færa stýrið fram og aftur. Ekki er heldur hægt að breyta hæð axlabeltis öryggisbeltanna. Þrátt fyrir þetta fer vel um ökumann og útsýni úr bílnum er einstaklega gott. Aftursætisrými er augljóslega ekkert yfirdrifið en fullorðnir geta vel setið þar í innanbæjarsnattinu, þó ég mundi kannski ekki velja þann stað ef fara ætti til Akureyrar. Ég gæti einnig trúað að umfangsmiklir barnabílstólar nútímans rúmist ekkert allt of vel í aftursætinu. Farangursrýmið er stutt en djúpt og rúmar ágætlega venjulegan skammt af innkaupapokum. Mælaborð er einfalt en skýrt aflestrar, engin aksturstölva er í bílnum en hann er þó búinn iPod tengi og CD spilara auk útvarps. Frágangur er þokkalegur og efnisval íburðarlaust. Að framan eru rafmagnsrúður en aftari hliðarrúður eru ekki niðurskrúfanlegar. Útispeglar eru ekki rafstilltir og ekki er ljós í sólskyggnum þó þar séu að vísu speglar. Sem sagt; hér er nánast ekkert sem ekki telst til lágmarksnauðsynja í bíl á okkar tímum.


Vél og akstur
Þegar bílnum er ekið fær maður þessa sömu tilfinningu og við skoðun innanrýmisins. Hér er allt sem þarf, það virkar og er einfalt og þægilegt í notkun, ekkert meira. Enda stóð það líklega aldrei til. Svona bíll er fyrst og fremst áhald til að leysa þörf fólks fyrir að komast milli staða og við smíð hans hafa flestir hlutir, sem gera meira en það verið hunsaðir. Þetta er samt hinn ágætasti bíll að keyra. Aflið er ekkert yfirdrifið, 60 hestöfl þykja ekki mikið í dag, en þegar bíllin vegur einungis um eitt tonn þá er engin þörf á að kvarta. Vélin er að vísu svolítið hávær ef henni er snúið eitthvað að ráði, en ef maður hlýðir hins vegar leiðbeiningum í mælaborði um hvenær skuli skipta um gír til að lágmarka eldsneytiseyðslu þá verður þess aldrei vart. Í staðinn er bíllinn þungur af stað og hröðun lítt æsandi. Svo velur bara hver fyrir sig hvort aksturslagið hentar honum betur. Gírskipting er létt og lipur en gírarnir eru einungis fimm. Það er allt í lagi í snattinu, en ef maður hættir sér út úr bænum saknar maður sjötta gírsins. Á 90 km hraða er vélin nefnilega á 2500 snúningum, sem er nokkuð mikið, einkum með tilliti til eyðslu. Svo má auðvitað spyrja sig hvort svona bíl hafi kannski aldrei verið ætlað að skreyta þjóðvegi. Stýri er létt án þess að virka ónákvæmt og fjöðrun er í mýkri kantinum, sem er ósköp þægilegt, en hún ræður ekki vel við að ekið sé af of miklum ákafa í gegnum beygjur eða hringtorg. Bíllinn veltur nokkuð mikið í beygjum en á móti kemur að ójöfnur sem á götunum finnast raska jafnvægi hans lítið.

Niðurstaða
VW Up gerir allt sem heimilistæki þarf að gera. Hann er ódýr, einfaldur í notkun, þægilegur í umgengni og hagkvæmur í rekstri. Hann gerir hins vegar ekkert meira en þetta. Ég er ekki að gagnrýna bílinn eða gera lítið úr honum með þessum orðum, þvert á móti. Þeir sem íhuga kaup á bíl sem þessum eru ekki að leita eftir neinu meiru en einmitt þessu. Vilji menn eitthvað íburðarmeira, fallegra, skemmtilegra, aflmeira... bara eitthvað meira, þá er þetta einfaldlega ekki rétti flokkurinn til að leita í. Þá skoða menn stærri og um leið dýrari bíla. Hér er ekki að finna ýmislegt, sem er orðið nær staðalbúnaður í nýjum bílum, en í raun er enginn vandi að vera án þess alls. Ég mundi alveg nenna að nota þetta. Þetta er einfaldlega lítið, sparneytið og einfalt áhald, sem gerir allt sem þú þarft og kostar lítið miðað við allt annað.