Audi A4 Allroad

Tegund: Audi A4 Allroad.

Allroad viðhengið merkir á Audimáli að um sé að ræða stationútgáfu með aukinni veghæð og fjórhjóladrifi. Sem sagt; fjórhjóladrifinn stationbíll. Það er nokkuð sem við Íslendingar þekkjum vel. Ég man, líklega 1977, eftir að hafa farið að skoða þá nýjan bíl á íslenskum markaði, Subaru, fjórhjóladrifinn stationbíl. Hann hefur síðan fylgt okkur í einni eða annarri mynd æ síðan, sem og sambærilegir bílar frá ýmsum framleiðendum öðrum. Slíkir nutu lengi mikilla vinsælda hérlendis, og gera svo sem enn. Það sem þó hefur gerst á síðustu 15 árum eða svo er, að jepplingurinn hefur dregið okkur til sín á kostnað fjórhjóladrifna stationbílsins. Það er svo sem fullkomlega rökrétt; þetta tvennt er jú í raun sama fyrirbærið bara í ólíkum umbúðum. Þetta virðist Audi skilja fullkomlega og reynir að dekka hvern krók og kima þessa markaðar fyrir fjórhjóladrifna bíla. Fólksbílar frá Audi eru allir framhjóladrifnir, en þá má alla fá með fjórhjóladrifi ef vill og fá þeir þá viðhengið Quattro. Síðan býður Audi einnig upp á jepplingalínu, Q-bílana. Þarna mitt á milli koma síðan Allroad bílarnir tveir, A4 og A6. Yfirbygging þeirra er station útgáfan af sömu bílum, en hann er hærri og með lengri fjöðrun, svo segja má að hann teygi sig í átt að jepplingunum; svona eins og hann sé á báðum áttum og vilji vera „pínulítið bæði“. Við höfum svo sem séð þetta áður. Nægir þar að nefna Volvo XC70 og Subaru Legacy Outback og ekki má gleyma að VW Passat og Skoda Oktavia eru einnig fáanlegir í sambærilegum útgáfum. En hvað um það. Ég ætla að snúa mér að bílnum, sem hér er til umfjöllunar; Audi A4 Allroad


Hönnun og útlit

A4 Allroad minnir mjög á A6 Allroad og Q bílana frá Audi (Q3, Q5 og Q7). Þetta kemur ekki á óvart því Audi, líkt og margir aðrir framleiðendur hafa lagt mikla áherslu á að skapa sér ákveðinn ættarsvip. Kannski má segja að 2. kynslóð A6 Allroad, sem kom fram 2006 hafi lagt grunn að þessum nefsvip. Stórt grill, sem nær í gegnum stuðarann og niður á svuntuna með hringjunum fjórum, merki Audi trónandi fyrir miðju sást fyrst á þeim bíl. Næstur kom síðan risajeppinn Q7, sem líktist svolítið A6 Allroad á sterum, þar á eftur Q5 sem er eins og vasaútgáfa af honum og nú síðast A4 Allroad sem er fljótt á litið minnkuð útgáfa af A6 Allroad. Nýjastur er síðan Q3 og þið megið giska á hverju hann líkist. Flókið? Já og nei, kannski. A4 og A6 Allroadarnir eru fólksbílar, í stationútgáfu að vísu, sem hækkaðir hafa verið upp og skreyttir áberandi, dökkum brettaköntum. Q bílarnir koma hins vegar úr hinni áttinni og má kalla þá jeppaættar. Allroadinn er glæsilegur bíll á að horfa og ber með sér yfirbragð fágunar og íburðar.

Innanrými

Þegar sest er inn í A4 Allroad blasir skyldleikinn við venjulegan A4 við. Hér er allt nákvæmlega eins. Og ekki bara það; hér er allt eins og vænta má í Audi, nær gallalaust. Ég nenni eiginlega ekki að fara að telja upp allt, sem maður er venur að fara í gegnum í lýsingu innanrýmis í bíl. Þetta er einfaldlega Audi og það eitt og sér segir allt sem segja þarf. Útsýni úr bílnum er gott, gluggar stórir og þó hann sé enginn smábíll (yfir 470cm langur) þá sést vel aftur úr honum. Umhverfi ökumanns er ákaflega þægilegt og ekki spilla sportsætin, sem reynsluakstursbíllinn var búinn. Þau styðja vel við hliðar manns og lengja má setuna til að fá aukinn lærastuðning, sem er einkar þægilegt á lengri leiðum. Mælaborð er einfalt og auðlæsilegt og öll stjórntæki vel staðsett. Aftursætisrými er gott og lítið mál fyrir fullvaxna að sitja þar og farangursrými er þokkalegt. Segja má, að eini munurinn á innanrými í A4 og A6 séu aftursætis- og farangursrýmið, sem hvor tveggja eru merkjanlega stærri í sexunni, svo ef þessir tveir þættir eru manni ekki mjög mikilvægir þá leysir sá minni allar þarfir manns.

Vél og akstur

Reynsluakstursbíllinn var búinn tveggja lítra díselvél upp á 177 hestöfn, sem togar 350 Nm og 7 gíra sjálfskiptingu. Þetta er svo sem engin ofgnótt afls, en dugir þó fullkomlega. Það er helst að manni finnist skorta hröðun úr kyrrstöðu, því maður nær engu út úr vélinni með því að þenja hana, sem er nákvæmlega það, sem maður gerir ef taka á af stað með látum. Á ferð er hröðun bílsins mjög góð og eins og títt er með þýska bíla þá er hættulega auðvelt að ná óhóflegum hraða, enda eru veggrip bílsins og aksturseiginleikar þannig, að lítið finnst fyrir hraða hans.

Það sem kemur mest á óvart við akstur bílsins er fjöðrunin. Allroadinn er hærri en venjulegur A4 og því væri viðbúið að hann væri svagari í beygjum vegna hærri þyngdarpunkts, en svo er ekki. Hann er vel stífur í beygjum og hallar lítið þó greitt sé farið. Hin aukna hæð, sem fæst meðal annars með slaglengri fjöðrun virðist ekki koma að sök við þessar aðstæður og hjálpar þar eflaust aukin sporvídd frá venjulegum A4. Hin aukna slaglengd sýnir hins vegar kosti sína á malarvegi. Þrátt fyrir breiða og lága hraðbrautarhjólbarða þá hagar bíllinn sér mjög vel á slíku undirlagi. Audiar hafa jafnan verið þekktir fyrir stinna fjöðrun en þessi er algerlega laus við hana. Ekki svo að skilja að hér sé um einhverja gamaldags ameríska ofurmýkt að ræða, heldur er hér á ferðinni einkennileg þversögn. Eins og áður sagði er bíllinn stinnur og flatur í beygjum á malbiki en á sama tíma mjúkur og meðfærilegur á grófu undirlagi. Mér finnst þetta hljóma eins og þversögn, og ekki kann ég að skýra þetta, enda ekki verkfræðingur, en þetta er einfaldlega svona. Breska bílapressan, sem almennt er ekkert yfir sig hrifin af fjöðrun Audibíla hefur enda almennt rómað A4 Allroad fyrir einmitt þetta. Frasar eins og „The best riding Audi“ hafa gjarna sést þaðan og ég ætla ekki að mótmæla þeim yfirlýsingu.

Niðurstaða

Ég er með 10 milljónir á reikningnum mínum og ætla út að versla. Kaupa bíl. Á þessu verði er af mörgu að taka. Eflaust þykir mörgum þetta há upphæð að greiða fyrir fólksbíl, en þetta er einmitt verðmiðinn á Audi A4 Allroad með þeim búnaði, sem prýddi reynsluakstursbílinn. Grunnverð hans er þó vel innan við 9 milljónir, en bíl sem þennan vill maður gjarna skreyta með viðbótarbúnaði og má hæglega hækka verðið til muna ef maður sleppir sér í aukabúnaðinum. Stóra spurningin, sem mögulegur kaupandi þarf að svara er, hvort hann vilji jeppa/jeppling eða fjórhjóladrifinn fólksbíl. Þetta er auðvitað bara spurning um smekk, og séu menn tilbúnir að sleppa fjórhjóladrifinu er hægt að fá mikinn fólksbíl fyrir þennan pening. Í mínum huga er A4 Allroad mjög góður kostur; þægilegur og íburðarmikill, glæsilegur og búinn góðum aksturseiginleikum. Enda krefst maður alls þessa á þessu verði. Mér finnst bíllinn uppfylla allar þær væntingar, sem maður gerir til bíls sem þessa. Sumir vilja kannski líta á hann sem „ódýra“ útgáfu af stóra bróður, A6 Allroad, en það finnst mér ekki vera alls kostar sanngjarnt. Sá stærri er ekki beinn keppinautur. Eðlilegra væri að bera hann saman við Subaru Legacy eða VW Passat Alltrack, sem eru báðir ódýrari, en skarta ekki hringjunum fjórum á nefinu. Þeir eru, eða eiga alla vega að vera trygging fyrir gæðum og lúxus og A4 Allroad býr yfir hvoru tveggja. Mundi ég kaupa þennan bíl? Nei. Ég mundi fá mér A6 Allroad, en þrátt fyrir það var ég stórhrifinn af bílnum. Þetta er bara spurning um peninga og smekk. A4 Allroad er klárlega valkostur, sem ég held enginn geti verið ósátur við. Þetta er einfaldlega frábær bíll.