Jaguar XKR

Sportbíll-GT Bíll?

Er munur? Hver er munurinn? Þessar spurningar kalla á smá sagnfræði og jafnvel málsögu. Sko. Sportbíll er lítill, opinn, tveggja sæta, afturdrifinn, ekkert endilega mjög aflmikill en hefur góða aksturseiginleika á þröngum, hlykkjóttum vegi. Akstursánægja skiptir meira máli en þægindi. GT bíll er í eðli sínu svipaður nema hvað hann er nokkuð stór, tveggja dyra með grínaftursæti, mjög aflmikill og hlaðinn lúxusbúnaði. Hans takmark í lífinu er að geta flutt ökumann, og kannski farðþega, langar vegalengdir á stuttum tíma í hámarks þægindum (enda stendur GT-ið fyrir Gran Turismo upp á ítölsku og þá er ekki verið að vísa í tölvuleikinn). Aksturseiginleikar hans miðast við Autobahna í Þýskalandi en ekki enska sveitavegi, eins og sportbílsins. Þessar skilgreiningar eru þröngar, enda er á markaði í heiminum hellingur af bílum, sem teygja mörk hvors hugtaks um sig og/eða reyna að sameina þau í einum og sama bílnum, svo ekki sé talað um þau ógrynni bíla, sem skreyta sig merkjunum án þess að eiga fyrir því. Inni á gólfi hjá 100bílum í Mosfellsbæ stendur, afgirtur rauðum borða, gljáfægður glæsivagn einn svartur. Maður gengur í hringi umhverfis hann nokkra stund og horfir. Veltir fyrir sér, hvað hinir ýmsu hlutar bílsins geti sagt manni um hann. Langt nefið gefur til kynna stóra vél, lág húddlína bendir til lágrar loftmótstöðu, sem vekur grun um mikinn hámarkshraða. Aftur um sig er bíllinn breiður og bólgin afturbrettin hylja breið afturdekk, sem segja manni að nóg sé af aflinu og hröðun trúlega í frísklegri kantinum. Hurðarnar eru aftarlega á hliðum bílsins , sem vekur hugrenningar um sportbíla. Og hvers konar bíll er þetta þá, sem skapar manni ofantaldar væntingar við það eitt að horfa á hann? Þegar hér er komið verður að leita á náðir upplýsingabankans í minninu.

 

Jaguar. Fornfrægur breskur bílaframleiðandi, sem á sér merka sögu jafnt í smíði keppnisbíla, sportbíla og lúxusvagna. Sögu, sem spannar rúm 80 ár. Ekki verður hún rakin hér, en glæsileg er hún fyrir utan niðurlægingartímabil bresks bílaiðnaðar á áttunda og níunda áratuginum. Þegar Ford eignaðist Jaguar 1990 var blásið til sóknar, bílalínan endurnýjuð og stefnan sett á að hefja Jaguar aftur til vegs og virðingar og endurvekja þá ímynd, sem merkinu hafði lengstum fylgt. Bíllinn, sem hér er til umfjöllunar má segja að sé af annarri kynslóð Jaguara, sem smíðaðir voru á þessu endurreisnartímabili. Fyrsta kynslóðin vakti væntingar um betri tíð hjá Jaguar þó ekki þætti hún gallalaus, en með annarri kynslóðinni komu svo blóm í haga og hafði merkið, alla vega í skrifum bílablaðamanna víða um heim náð því takmarki, að smíða bíl, sem væri fullkomlega samkeppnishæfur við helstu lúxusmerkin. Og nú var loks komið að því að ég fái tækifæri til að prófa Jaguar, en sá heiður hefur mér ekki hlotnast áður. Óneitanlega er maður svolítið spenntur. Um er að ræða Jaguar XKR frá árinu 2008. XK bíllinn hefur verið framleiddur frá 2006, fékk nokkra andlitslyftingu 2009 og er framleiddur enn í dag.


Ef við rifjum aðeins upp vangavelturnar í upphafi um skilgreinungu á sportbíl, þá er ljóst að þetta er varla sportbíll þó ekki sé nema stærðarinnar vegna. Þetta er dæmigerður GT (Grand Touring) bíll og það var með þeim væntingum, sem ég settist undir stýri eftir að starfsmaður hafði rennt honum út úr sýningarsalnum. Auðvitað var maður búinn að kynna sér dýrið fyrirfram. Það, sem netleit segir manni er þetta: Lengd 490 cm, breidd 190 cm, þyngd 1730 kg. Engin smábíll hér á ferð, svo eitthvað þarf af hestöflum. Af þeim er nóg: 304 stykki dregin úr 4,2 lítra V8, 5,8 sek í 100 og tekur kvartmíluna á 14,3. En, bíðum aðeins; þetta eru tölur fyrir XK. Hér er ég með XKR, sem er villidýrsútgáfan af Jaguar XK. Í útliti er ekki margt, sem greinir á milli venjulegs XK og XKR. Bara eitt lítið R, sem sést hvergi á bílnum nema sem merki á afturendanum. Og gerfiloftristar á frambrettunum framan við hurðarnar. Og krómuð loftinntökin á húddinu með ígreiptu orðinu „supercharged“. Þetta þrennt er allt sem ég þarf til að segja mér að þetta sé eitthvað fullorðins. Enda sýnir það sig í tölfræðinni. Hestöflin eru orðin 420, 0-100 tíminn kominn niður í 4,7 og kvartmílutíminn í 13,2.


Reynsluaksturinn sjálfur


Hefst nú aksturinn. Þegar sest er inn í bílinn byrjar maður á að líta í kring um sig. Leðurklætt allt, sem leðri verður á komið, nema toppurinn, sem er klæddur e.k. rússkinni eða hvað það nú heitir. Mælaborðið einfalt og klassískt nema á milli hraða- og snúningsmælanna er lítil klukka með vísum, sem á eflaust að vera einhver retróvísun. Í miðju er stór snertiskjár, þar sem stjórna má öllu mögulegu, gírstöngin trónir stór og áberandi á sínum stað (já, bíllinn er sjálfskiptur, held ég hafi gleymt að taka það fram einhvers staðar). Sætin eru auðvitað rafmagnsstillt á alla enda og kannta og meðal annars má breyta hæð þeirra mjög mikið, sem kom sér vel því í hárri stöðu rak ég gjarna höfuðið utan í hliðina fyrir ofan hliðarrúðuna. Með því að lækka sætið, og ekki einu sinni í lægstu stöðu kom ég algerlega í veg fyrir þetta. Annars eru sætin aldeilis frábær. Veita ágætan hliðarstuðning, án þess að vera eitthvað keppnis, sem maður þarf að brölta í og úr með fyrirhöfn. Hér sest maður inn, situr og stígur út aftur algerlega án slíkra óþæginda. Þess má loks geta að það eru aftursæti í bílnum, en einungis til að geyma í skjalatöskur eða innkaupapoka. Ég mundi ekki bjóða nokkrum m anni að sitja þar nema kannski ef framsætisbúar væru af smæstu gerð.

Vélin er ræst með rauðum hnappi í mælaborðinu, sem virkar eiginlega eins og volume takki á voldugum hljómtækjum. Ýttu á hann og réttu aðeins úr hægri tánum og ...VÁ, þvílíkt hljóð. Þetta er greinilega eitthvað spennandi. Maður fer að hafa áhyggjur af að sjálfskiptingin kunni að spilla gleðinni. Það reynast óþarfa áhyggjur. Tog vélarinnar er svo mikið, að hún rífur bíllinn bókstaflega af stað við allar aðstæður og maður þarf virkilega að vanda sig til að taka af stað eins og venjulegaur bílstjóri. Hræddur er ég um að ef ekki væri spólvörn á bílnum mundi líftími afturdekkjanna flokkast sem ungbarnadauði. Við dólakstur innanbæjar kemur fjöðrunin manni á óvart. Maður á von á að svona tryllitæki með R í nafninu sé grjótharður en það er Jaguarinn alls ekki. Hegðun hans við þessar aðstæður minnir miklu meira á vandaðan lúxusbíl (E-Bens, 5-línu BMW) heldur en það urrandi villidýr sem hann er. Þegar maður slær gírstönginni til hliðar og setur skiptinguna í sportstillingu. Man einhver eftir Jekyll og Hyde? Þetta er bílútgáfan af honum/þeim. Með bílinn í þessari styllingu verður maður eiginlega hálf vonsvikinn. Ekki með bílinn, þvert á móti, heldur með þær aðstæður, sem maður hefur til að aka honum. Mig vantar þýska hraðbraut, lokað svæði þar sem ég má gera hluti, sem ekki má á götum úti, kappakstursbraut, eitthvað annað og meira en íslenska þjóðvegakerfið. Þú tekur af stað af nokkurri ákefð og afturhjólin virðast ætla að grafa sig í malbikið þar til spólvörnin slær á puttana á þeim. Auknablikshik og síðan þýtur bíllinn af stað. Vélin æðir upp í hálft sjöunda þúsund snúninga þar sem þú skiptir um gír með flipanum aftan við stýrið. Hröðunin eykst enn. Löglegum hámarkshraða er náð löngu áðru en þú varst búin að lesa þessa einu málsgrein. Og svona mætti halda áfram upp í einhvern hámarkshraða sem skiptir ekki máli hérlendis. En þetta er þó ekki það skemmtilegasta. Það er keyra bílinn á hóflegum hraða í rólegheitum, slá síðan skiptingunni niður um 2-3 gíra og negl´ann. Þú þrýstist ekki niður í sætið, þú ert laminn þangað. Viðbragð vélarinnar er þannig að maður upplifir ekkert hik. Það er eins og allt aflið skili sér á sama augnabliki. Og annað, næstum jafn skemmtilegt. Að hlusta. Vélin, við svona notkun hljómar eins og..., ég veit ekki við hvað á að líkja hljóðinu. Hugsið bara um flottasta hljóð, sem þið þekkið og þetta er a.m.k. þar á skalanum ef ekki ofar. Mig langaði m.a. að mynda mér skoðun á gæðum hljómtækjanna í bílnum en get það ekki, því ég var alltaf búinn að slökkva á þeim eftir skamma stund til að hlusta á vélina.Aksturseiginleikum er ekki hægt að kvarta yfir. Stýri veitir létt viðnám við snúningi þannig að þú veist alltaf nákvæmlega hvert framhjólin vísa, fjöðrun heldur bílnum flötum í beygjum án þess að vera stinn, sem gerir að verkum að þægindin minnka ekki þó malbikinu hraki. Ég efast ekki um að það sé enginn vandi að aka þessum bíl langar leiðir án þess að lýjast, hvort sem er rólega á 90 eða á þar til gerðum vegi á tvöföldum þeim hraða eða þaðan af meiri. Ég get ekki fundið nema tvo galla á þessum bíl. Annar er skortur á nothæfu aftursæti, ef það skiptir mann máli og hinn er hve erfitt kynni að reynast að vera löghlýðinn á bíl sem þessum. Ég held mig þó vera búinn að finna lausn á þessu. Ef ég ætti svona Jaguar og þyrfti aftursæti mundi ég bara kaupa einhvern venjulegan bíl til að nota þegar sú þörf yrði knýjandi. Og sá bíll mundi líka auðvelda mér að halda akstrinum innan marka laganna. Enda mundi ég aldrei tíma að nota svona Jaguar dags daglega, en ******* langar mann til þess.


Haukur